Vegahandbókin

English ... Íslenska ... Deutsch ...
Veftré  |  Hafa samband  |  Augl.

Vörurnar okkar

Vörurnar okkar

Leita

Staðir


Þjónusta
 

Bók

Vegahandbókin

Vegahandbókin á að baki 40 ára feril í bílum landsmanna. Bókin hefur verið í stöðugri uppfærslu og endur nýjun frá fyrstu útgáfu. Í máli, myndum og með kortum er ferðalangnum vísað til vegar og hann fræddur á ferð sinni um landið.

Lesa bók

Sölustaðir

3. Mýrar og Snæfellsnes

Sjá meira Upplifðu Ísland  >  Gallerí  >  Sjófuglar
og Upplifðu Ísland  >  Náttúra  >  Dýralíf  >  Fuglar
og Upplifðu Ísland  >  Gallerí  >  Lundar

WP
Land er víða allvel gróið, ár fjölmargar og fjöldi lækja og vatna.

Mest ber á mófuglum og votlendisfuglum og víða með sjónum gefst kostur á að virða fyrir sér fugla í fjörum og uppi í landsteinum.

Mikill meirihluti af leirum og fjörum landsins er við vesturströndina og má því að öllum jafnaði gera ráð fyrir auðugra fuglalífi á þessum slóðum en víðast hvar annars staðar. Þetta á einkum við á fartíma. Farflugsleið ýmissa hánorrænna fugla liggur með vesturströndinni og þeir leita mikið í fjörur og leirur vestanlands að afla sér fæðu.

Út með sunnanverðu Snæfellsnesi sést mikið af álftum og öndum, enn fremur himbrimar og lómar og ógrynni annarra fugla, einkum kríur, hettumávar og ýmsar tegundir mófugla og votlendisfugla. Loks má geta þess að Mýrar eru hluti af útbreiðslusvæði hafarna.

Með ströndinni milli Arnarstapa og Hellna er gífurleg fuglamergð. Mest ber á ritu og kríu en þarna verpa einnig svartbakar og aðrar mávategundir. Sjá má stöku svartfugla skammt frá landi að ógleymdum straumöndum í ölduróti undir sjávarhömrum og strjálingi af óðinshönum við litlar tjarnir.

Í Þúfubjargi verpa rita, langvía, stuttnefja og fýll. Norðar eru Svörtuloft, allháir sjávarhamrar, og verpa þar ýmsar tegundir sjófugla. Milli Hellissands og Rifs er eitthvert mesta kríuvarp landsins. Við Rif eru grunnar tjarnir og þar halda til fjölmargir strandfuglar sem og á sjávarkambinum með veginum til Ólafsvíkur. Á norðanverðu Snæfellsnesi ber mikið á hvítmávi enda er hér komið inn á helsta varpsvæði tegundarinnar. Í Breiðafjarðareyjum, sem skipta þúsundum, verpur aragrúi sjófugla, m.a. lundar og aðrir svartfuglar. Breiðafjörður er jafnframt helsta varpsvæði dílaskarfs og toppskarfs og einnig verpa nokkur arnarpör á þessum slóðum. Dún- og fuglatekja var fyrrum drjúgur þáttur í afkomu fólks hér um slóðir og í nokkrum eyjum er æðarvarp enn nytjað.

Enn er ógetið Álftafjarðar nokkru fyrir innan Stykkishólm. Þar halda álftir til hundruðum saman að sumarlagi auk fjölda annarra fugla.
Copyright © Vegahandbókin ehf.
Base map copyright © LMI
Layout based on YAML.