Vegahandbókin

English ... Íslenska ... Deutsch ...
Veftré  |  Hafa samband  |  Augl.

Vörurnar okkar

Vörurnar okkar

Leita

Staðir


Þjónusta
 

Bók

Vegahandbókin

Vegahandbókin á að baki 40 ára feril í bílum landsmanna. Bókin hefur verið í stöðugri uppfærslu og endur nýjun frá fyrstu útgáfu. Í máli, myndum og með kortum er ferðalangnum vísað til vegar og hann fræddur á ferð sinni um landið.

Lesa bók

Sölustaðir

Heitar laugar

Sjá meira Upplifðu Ísland  >  Gallerí  >  Heitar laugar


WP
Jarðhitinn er eitt af höfuðeinkennum Íslands. Flatarmál jarðhitasvæða á Íslandi er meira en í nokkru öðru landi. Jarðhiti er þekktur á yfir 700 stöðum á landinu.

Til að leiða jarðvarma til yfirborðs þarf vatn. Úrkoma þarf að komast ofan í jörðina þar sem hiti verður að vera nægur til að það hiti. Síðast en ekki síst þarf sprungu eða annað lekt svæði svo heita vatnið komist upp á yfirborðið á ný.

Nokkur hluti úrkomunnar nær að seytla niður í berggrunninn. Varminn sem hitar upp vatnið er talinn koma frá hraunkviku. Eldgos verða þegar kvika nær til yfirborðsins og á Íslandi hafa að meðaltali orðið eldgos á um það bil fimm ára fresti frá því land byggðist, og raunar miklu lengur. Á síðustu ellefu hundruð árum hafa jarðeldar verið uppi um 230 sinnum.

Ofan á möttli jarðar flýtur jarðskorpan svonefnda líkt og ís á vatni og er því "hreyfanleg" við vissar aðstæður. Aflvaki jarðskorpuhreyfinga er sá varmi sem myndast í iðrum jarðar við klofnun geislavirkra efna. Varminn streymir frá miðju jarðar, kjarnanum, um möttul og síðast jarðskorpu til yfirborðsins. Berg er hins vegar lélegur varmaleiðari og hitamyndun í iðrum jarðar er meiri en svo að leiðni um bergið nægi til að koma varmanum upp. Því hafa myndast í jarðmöttlinum svokallaðir iðustraumar sem flytja varmann upp í yfirborðið. Þessi hreyfing efnisins í jarðmöttlinum er orsök jarðskorpuhreyfinga, eldvirkni og jarðhita. Varminn er upphaflega kominn frá miðju jarðar og á leið sinni til yfirborðsins hitar hann vatnið.

Útleiðni varmans er mest á svokölluðum plötuskilum og ein slík liggja þvert yfir Ísland. Á þessari brotalöm í jarðskorpunni leitar kvikan í átt til yfirborðsins, hitar þar nágrenni sitt og myndar kvikuþrær. Kvikuþrær valda því að eldstöðvakerfi myndast á yfirborði og mörg slík mynda svokölluð gosbelti. Eldvirkni á Íslandi er og hefur alltaf verið tengd gosbeltum.

Hverir og laugar eru leki úr almenna straumkerfinu vegna smíðagalla í bergstaflanum. Staflinn þéttist með tímanum og verður minna lekur. Ef ekki kæmu til brotalínur og aðrar missmíðar fyndi vatnið ekki þessar smugur út úr kerfinu og myndi að mestu streyma út á landgrunn án þess að komast upp á yfirborðið. Algengustu uppstreymisrásir eru gangar og misgengissprungur. Slík fyrirbæri þéttast þó með tímanum vegna útfellinga og því þarf sífellt rask, svo sem jarðskjálfta, til að viðhalda rennslinu upp á yfirborðið.

Allt frá landnámi hafa Íslendingar nýtt jarðhitann til þvotta og baða eins og víða kemur fram í fornum sögum. Frægust er líklega laug Snorra Sturlusonar í Reykholti í Borgarfirði. Þangað sótti sagnaritarinn hvíld og hressingu og ræddi þjóðmál líðandi stundar við félaga sína, líkt og enn er gert í heitu pottunum við sundlaugar landsins.

Víst er að jarðhitinn hefur vakið mikla athygli hjá þeim sem hér námu land og gáfu fyrirbærum nöfn. Það sýna meðal annars þau mörgu fornu örnefni sem samsett eru með varma, reyk, eða laug. Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi reiknaðist svo til að í íslensku fornbókmenntunum séu að minnsta kosti 55 örnefni eða um 2% allra örnefna sem í þessum ritum er að finna af ofangreindu tagi.

Fyrsta hús á Íslandi sem hitað var með jarðhita, svo vitað sé, var íbúðarhús í Mosfellssveit en þangað var lögð heitavatnsleiðsla árið 1909. Ári áður var hveragufa raunar lögð í hús á Sturlureykjum í Reykholtsdal og nýtt til allrar eldamennsku á heimilinu.

Árið 1928 var borað við Þvottalaugarnar í Reykjavík og fengust um 15 sekúndulítrar af 94 gráðu heitu vatni, sem var nægjanlegt fyrir hitaveitu til bæjarins. Laugaveitan svokallaða var fullgerð árið 1930 og hitaði þá Landspítalann, Austurbæjarskólann og um 60 íbúðarhús.

Eftir þetta fóru hlutirnir að gerast hratt og í dag byggir engin þjóð að jafn stórum hluta á jarðhita í orkubúskap sínum og Íslendingar. Jarðhiti er ómissandi í daglegu lífi flestra Íslendinga.

Á nokkrum stöðum á landinu hagar svo til að heitt jarðvatn safnast fyrir þannig að hægt sé baða sig í því. Á öðrum stöðum hefur maðurinn komið til hjálpar og útbúið baðstaði úti í náttúrunni. Í seinni tíð hafa svo verið útbúnir baðstaðir að fullu og öllu leyti. Það er því erfitt að skilgreina hvað er náttúruleg baðlaug. Þar sem Bláa lónið er nú var enginn jarðhiti á yfirborði þegar framkvæmdir hófust. Vatninu er dælt upp um borholur og allt umhverfið manngert. Meðal þekktra náttúrulegra baðlauga eru:
Copyright © Vegahandbókin ehf.
Base map copyright © LMI
Layout based on YAML.