Arnarstapi eða Stapi, fiskiþorp. Einn merkasti staður á Snæfellsnesi sakir landslags. Þar eru við sjóinn furðulegir stapar úr stuðlabergi, gjár og skútar. Frægastur Gatklettur. Skammt þaðan þrjár gjár er sjór spýtist upp um í stórbrimum líkt og hveragos tilsýndar.
Göngu meðfram ströndinni er best að hefja ofan hafnarinnar og þegar komið er móts við steinkarlinn, Bárð Snæfellsás, eftir Ragnar Kjartansson, er stefnan tekin á hann.
Amtmannssetur á 19. öld er Bjarni Thorsteinsson (1781–1876) verður amtmaður í Vesturamtinu og kaupir þar hús sem reist var á tímabilinu 1774–1787 á vegum Einokunarverslunarinnar. Talið með glæsilegustu húsakynnum á landinu á sínum tíma.
Í amtmannshúsinu fæddist Steingrímur Thorsteinsson skáld (1831–1913). Síðar var húsið flutt að Vogi á Mýrum og þar var það komið að falli er áhugafólk tók við húsinu og flutti aftur að Arnarstapa og endurbyggði þar.
Gagngerar breytingar hafa verið gerðar á hinni einstöku höfn við Arnarstapa og útsýnispallar settir upp fyrir ferðafólk, annan með aðgengi fyrir fatlaða. Þar nýtur fólk fuglalífs og því að fylgjast með athafnalífi heimamanna.