Tjörn, kirkjustaður og prestssetur til 1917. Þaðan var Kristján Eldjárn (1916–82) forseti Íslands. Sérstök Kristjánsstofa Eldjárns í byggðasafninu á Dalvík. Í brekkunum beint upp af Tjarnarbænum var kotið Gullbringa. Þangað fluttist frá Völlum í sömu sveit árið 1884 Arngrímur Gíslason, sem Björn Th. Björnsson listfræðingur hefur gefið þessa einkunn: „Af alþýðumálurum á síðari helmingi 19. aldar er í raun og veru aðeins einn maður sem verðskuldar listamannsnafn, en það er Arngrímur Gíslason frá Skörðum í Reykjahverfi“. Arngrímur byggði vinnustofu áfasta við kotið í Gullbringu árið 1884. Mun það vera fyrsta vinnustofa listamanns á landinu. Arngrímsstofa var endurbyggð 1983, með tilstyrk Seðlabanka Íslands, í minningu dr. Kristjáns Eldjárns. Hann ritaði bók um Arngrím sem kom út árið 1983 og ber heitið Arngrímur málari. Arngrímsstofa er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands og opin almenningi. Árið 1972 tóku nokkrir bændur og jarðeigendur í Svarfaðardal saman höndum með Náttúruverndarráði Íslands og stofnuðu Friðland Svarfdæla sem tekur yfir um 8 km2 votlendissvæði beggja vegna Svarfaðardalsár neðan frá sjó fram að Húsabakkaskóla. Á þessu víðáttumikla landflæmi skiptast á þurrir árbakkar og blautar mýrar með stararflóum, síkjum og gróðursælum seftjörnum. Þetta náttúrufar skapar kjörlendi fyrir fjölmargar fuglategundir sem eiga hér varplönd sín. Í apríl taka farfuglarnir að tínast hingað hver á fætur öðrum og bæta á hverjum degi nýrri rödd í hljómkviðu náttúrunnar. Í friðlandinu eru göngustígar með upplýsinga– og fuglaskilti.