Arngrímsstofa

Tjörn, kirkju­stað­ur og prests­set­ur til 1917. Það­an var Krist­ján Eld­járn (1916–82) for­seti Ís­lands. Sérstök Kristjánsstofa Eldjárns í byggða­safn­inu á Dalvík. Í brekkunum beint upp af Tjarnar­bæn­um var kotið Gull­bringa. Þangað fluttist frá Völlum í sömu sveit árið 1884 Arn­grímur Gísla­­son, sem Björn Th. Björnsson listfræðingur hefur gefið þessa einkunn: „Af alþýðumálurum á síðari helmingi 19. aldar er í raun og veru aðeins einn maður sem verð­skuldar lista­­manns­nafn, en það er Arn­grímur Gísla­son frá Skörðum í Reykja­­hverfi“. Arn­­grímur byggði vinnu­stofu áfasta við kotið í Gull­bringu árið 1884. Mun það vera fyrsta vinnustofa lista­manns á landinu. Arn­gríms­stofa var endurbyggð 1983, með tilstyrk Seðlabanka Íslands, í minn­ingu dr. Kristjáns Eldjárns. Hann ritaði bók um Arngrím sem kom út árið 1983 og ber heitið Arngrímur málari. Arn­gríms­stofa er hluti af húsasafni Þjóð­minja­safns Íslands og opin almenningi. Árið 1972 tóku nokkrir bændur og jarðeigendur í Svarfaðardal saman höndum með Náttúruverndarráði Íslands og stofnuðu Friðland Svarfdæla sem tekur yfir um 8 km2 votlendissvæði beggja vegna Svarfaðardalsár neðan frá sjó fram að Húsabakkaskóla. Á þessu víðáttumikla landflæmi skiptast á þurrir árbakkar og blautar mýrar með stararflóum, síkjum og gróðursælum seftjörnum. Þetta náttúrufar skapar kjörlendi fyrir fjölmargar fuglategundir sem eiga hér varplönd sín. Í apríl taka farfuglarnir að tínast hingað hver á fætur öðrum og bæta á hverjum degi nýrri rödd í hljómkviðu náttúrunnar. Í friðlandinu eru göngustígar með upplýsinga– og fuglaskilti.