Auðkúluheiði

Auðkúluheiði, heiðaflákinn milli Blöndu að austan og Grímstunguheiðar að vestan, norðan frá byggð og suður á Hveravelli. Fyrr taldist allur Kjölur til hennar og var allt eign Auðkúlu í Svínadal. Heiðin er afréttarland Svínavatns– og Torfalækjarhreppa. Heiðin er að mestu flatlend, 400–500 m há en nokkur fell sunnan til. Norðanvert á henni eru mörg vötn, sum allstór. Mikill hluti af norðurheiðinni fór undir vatn við Blönduvirkjun sem reist var 1984–1988, afl 150 MW. Miðlunarlónið er um 40 km2 á stærð. Stífla var gerð í farvegi Blöndu við Reftjarnarbungu, 44 m há og um 800 m löng. Veituleið þaðan er 24 km út á Eiðsstaðabungu, innan við Gilsá, en þar er stöðvarhúsið neðanjarðar og vatninu síðan veitt aftur í farveg Blöndu. Miklar vegabreytingar urðu vegna virkjunarinnar, m.a. var vegur lagður yfir Áfangafell en þaðan er mikið útsýni yfir heiðarnar.