Bæjardyrahúsin Reynisstað

Reynistaður, kirkjustaður og höfuðból að fornu og nýju. Þar bjó Þor­finnur karlsefni og var staðurinn í eigu ættmenna hans fram til 1259 og þar sat Gissur jarl um hríð. Nunnuklaustur var þar stofnað 1295 og stóð til 1552. Á Reyni­stað er hurð sem munnmæli herma að sé úr klaustrinu. Sátu þar löng­um héraðshöfðingjar, lögmenn og sýslumenn. Þaðan voru Reyni­staðar­bræð­ur sem úti urðu á Kili 1780. Á Reynistað er bæjardyrahús sem er það eina sem varðveist hefur af bæ þeim sem Þóra Björnsdóttir lét reisa eftir mikinn bruna sem þar varð árið 1758. Portið er með stafverksgrind af þeirri gerð sem víða tíðkaðist hér á landi á 18. öld þegar áhrifa bindings­verks var tekið að gæta. Öll smíði ber þess vitni að vel hafi verið til húss­ins vandað í sinni tíð og eru margir viðanna prýddir strikum. Gömlu bæjar­húsin á Reyni­stað voru tekin niður skömmu eftir 1935 en þessu húsi var leyft að standa áfram. Hluti af húsasafni Þjóð­minja­safns Íslands frá 1999.