Bessastaðir, forsetasetur, kirkjustaður og fornt höfuðból á Álftanesi. Bessastaða er fyrst getið í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar og eru þeir þá í eigu Snorra Sturlusonar. Eftir dráp Snorra 1241 sló Noregskonungur eign sinni á Bessastaði og urðu þeir því fyrsta jörðin á Íslandi sem komst í konungseign. Varð þar brátt höfuðsetur æðstu valdsmanna konungs hér á landi og var svo allt til loka 18. aldar. Árið 1805 var Lærði skólinn, sem þá var æðsta menntastofnun í landinu, fluttur til Bessastaða og starfaði þar í rúm 40 ár.
Allan seinni hluta 19. aldar, eða frá 1867, voru Bessastaðir í eigu eins af kunnustu og mikilhæfustu skáldum þess tíma, Gríms Thomsens (1820–96), en hann fæddist þar. Eftir lát Gríms voru Bessastaðir lengst af í eigu einstaklinga uns Sigurður Jónasson (1896–1965), forstjóri í Reykjavík, gaf íslenska ríkinu staðinn til búsetu fyrir ríkisstjóra, vorið 1941. Síðan hafa forsetar Íslands haft þar aðsetur. Sveinn Björnsson (1881–1952) frá því er hann varð ríkisstjóri 1941 og síðar forseti, til dánardægurs. Ásgeir Ásgeirsson (1894–1972) 1952–68, Kristján Eldjárn (1916–82) 1968–80, Vigdís Finnbogadóttir (f. 1930) 1980–1996 og Ólafur Ragnar Grímsson (f. 1943) frá 1996.
Forsetabústaðurinn á Bessastöðum er í röð elstu húsa á Íslandi, reistur á árunum 1761–66 sem amtmannssetur. Síðan hefur húsinu verið nokkuð breytt og byggt við það. Árið 1987 voru gerðar talsverðar endurbætur á Bessastaðastofu og komu þá í ljós merkar fornminjar undir gólfi stofunnar. Núverandi kirkja var reist á árunum 1777–1823. Í Bessastaðalandi var gert virki á 17. öld (Skansinn). Nýr bústaður forsetans reistur 1995, á lóð gamla ráðsmannsbústaðarins.