Björg, ysti bær í Kaldakinn, engja– og hlunnindajörð. Þar endar þjóðvegurinn en þokkalegur bílvegur er til sjávar um 5 km leið. Þaðan var talinn klukkustundargangur út í Naustavík. Sæta þurfti sjávarföllum og stilltum sjó er gengið var norður með Litlufjörubjargi fyrir Hellisflös út í Hellisvík. Þar norðan í þverhnípt bergið skarst langur hellir, ýmist kallaður Ágúlshellir eða Þinghellir. Þjóðsagan segir að bergrisinn Ágúll byggi í hellinum. Á 17. öld bjó á Sandi í Aðaldal Arnór galdramaður Ólafsson og átti hann vinsamleg skipti við risann. Ekki var vitað með vissu hvað hellirinn var langur, hann var yfirleitt hálffullur af möl, en því var trúað að göng væru innst úr hellinum inn í annan helli sýnu meiri en þar geymdi Ágúll gullkistu sína. Upp úr 1970 fara að sjást ýmsar breytingar við vestanverðan Skjálfandaflóa. Þar sem áður voru gengnar malarfjörur svarf nú sjór í bjargi og mörg gömul mannvirki á sjávarbökkum eru að hverfa í hafið. Leikmönnum hefur dottið í hug að tengja þessar breytingar þeim umbrotum sem urðu í Þingeyjarsýslum á þessum árum. Árið 1973 þvær allt lauslegt út úr hellinum og sá þá allt til botns, um 50 m, en engin reyndust nú göngin til gullkistunnar og annað verra, gönguleiðin norður í Víkur var nú ófær með öllu. Var þá brugðið á það ráð að gera glugga á helli risans; 10 m löng göng inn í hellinum innst. Var þetta til mikilla bóta fyrstu árin en síðan hefur gengið jafnt og þétt á fjöruna vestur að hellinum og leiðin nú ófær með öllu. Þeir sem þangað stefna ættu að leita sér leiðsagnar að Björgum.