Borg á Mýrum, kirkjustaður og prestssetur. Landnámsjörð Skallagríms Kveldúlfssonar. Þar sat Egill Skallagrímsson, sonur hans, höfuðskáld fornaldar og síðan margir ættmenn hans og niðjar, m.a. Snorri Sturluson um skeið. Munnmæli herma að Kjartan Ólafsson, aðalsöguhetja Laxdælasögu, sé grafinn þar. Borgarnes var í Borgarlandi og mörg ítök og hlunnindi fylgdu staðnum. Á Borg er listaverkið Sonatorrek eftir Ásmund Sveinsson (1893-1982) og í kirkjunni er altaristafla eftir W.G. Collingwood frá 1897.