Breiðdalur, mestur dala í Austfjarðahálendinu. Mikið undirlendi yst upp frá Breiðdalsvík, en síðar klofnar dalurinn í Norðurdal og Suðurdal, sem er víðari en um hann liggur þjóðvegurinn. Víða í Breiðdal eru góðar gönguleiðir. Fjöll há, hæst 1100–1200 m, mjög formfögur og litauðug vegna líparíts sem myndaðist á tertíertíma í svonefndri Breiðdalseldstöð. Margir sérkennilegir tindar og bríkur. Víða skógarkjarr. Um miðjan dal eru víðáttumiklir melar, gamlir marbakkar síðan sjór náði inn í landið. Slík fyrirbæri sjást víða á Austfjörðum í mismunandi hæð yfir sjó. Þónokkrir áningastaðir eru í dalnum.