Suðursveit, nær frá mörkum í austri á Heinabergsaurum að Nýgræðukvíslum vestan við Jökulsá á Breiðamerkursandi. Undirlendi mjótt milli fjalls og fjöru. Fjöll há og svipmikil að baki, en hlífa sveitinni fyrir ágangi vatna og jökla. Sólrík sveit og svipmikil. Lón og rif með ströndinni. Inn í fjöllin ganga dalir; Staðardalur, Kálfafellsdalur og Steinadalur. Kálfafellsdalur er um 14 km langur. Fyrir botni hans er þverbrattur gafl og fellur þar jökulfoss niður. Jökullinn klofnaði á klettanöf og leit því út eins og brók, og fékk af því nafnið Brókarjökull. Þarna er eitt stórbrotnasta fjallgöngusvæði landsins. Nokkur fjöll við dalinn eru yfir 400 m og hæst er Þverártindsegg 1554 m, vestan megin.