Bustarfell

Bustarfell, hvassbrýnt fell með klettariði, sem vegurinn liggur eftir, skammt frá brúninni. Tvö vötn uppi á fjallinu, Þuríðarvatn og Nykurvatn. Af fellinu mikil útsýn um meginbyggð Vopnafjarðar. Þar er hringsjá. Á gamlársdag 1990 hrapaði unglingspiltur af Jökuldal fram af fjallsbrúninni við hringsjána um 70 metra niður í farvegardæld í fjallskriðunni sem ofurlítill snjór hafði safnast í og rann síðan 30 metra. Slapp hann með skrámur og rifbrot. Bustarfell er fornt höfuðból og ein stærsta jörð í Vopnafirði. Jörðin hefur verið í sjálfsábúð sömu ættar frá 1532. Torfbærinn sem nú stendur þar er að stofni til mjög gamall, jafnvel að hluta til frá því hann var endurbyggður eftir mikinn bruna 1770, en um aldur einstakra bæjarhúsa er erfitt að fullyrða með nokkurri vissu. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á húsaskipan á liðnum öldum. Að stórum hluta er bærinn þó eftir Einar Einarsson staðarbónda og Árna Jónsson snikkara frá Hólum í Vopnafirði frá seinni helmingi 19. aldar. Búið var í bænum fram til 1966. Vindrafstöð var sett upp 1942 og rafmagn til ljósa leitt í bæinn. Hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá 1943. Meðal kunnustu ábúenda þar eru Björn Pétursson (um 1661–1744) sýslumaður sem miklar sagnir lifa um og Methúsalem Methúsalemsson (1889– 1969). Minjasafnið á Bustarfelli er til húsa í bænum og eru munir úr búi Methúsalems uppistaða safnsins. Hann lagði mikla rækt við að halda til haga gömlum munum úr bænum og í eigu Bustarfellsættarinnar. Minjasafnið var gert að sjálfseignarstofnun 1982 og munirnir þá afhentir Vopnfirðingum að gjöf.