Dalatangi, þar er veðurathugunarstöð og elsti viti landsins. Otto Wathne útgerðarmaður á Seyðisfirði lét reisa vitann fyrir eigin reikning árið 1895, en danska vitamálastofnunin lagði til notaðan steinolíulampa og spegil.
Nýr viti var reistur á Dalatanga árið 1908 úr steinsteypu og voru þá ljóstæki gamla vitans flutt í nýjan vita á Brimnesi, nokkru norðar. Veggir gamla vitans voru illa farnir og þak að falli komið, þegar ákveðið var að gera hann upp í upphaflegri mynd á níunda áratug tuttugustu aldar. Viðgerðir fóru fram árið 1985 og voru þær kostaðar af Siglingamálastofnun Íslands. Hefur vitanum verið sinnt reglulega síðan.