Drangey

Drangey,rís sæbrött fyrir miðjum Skagafirði og úr eynni er stórkostlegt útsýni yfir Skagafjörð. Eyjan er þverhníptur móbergsklettur um 180 metrar á hæð og er aðeins kleif á einum stað, í Uppgöngu fyrir ofan Uppgönguvík.

Fuglalíf er fjölbreytt í Drangey þó mest beri þar á svartfuglategundum; stuttnefju, langvíu, álku og lunda. Bjargsig hefur verið stundað í Drangey um aldir og var eyjan forðabúr Skagfirðinga fyrr á tímum. Mest voru veiddir þar um 200.000 fuglar og tínd 24.000 egg.

Margar gamlar þjóðsögur eru tengdar við Drangey, eins og Grettissaga þar sem frægasti útlagi Íslands, Grettir Ásmundarson, dvaldi þrjú ár í eynni. Úr Drangey synti hann að Reykjum á Reykjaströnd til að ná í eld og þótti það mikið afrek.

Boðið er upp á daglegar ferðir út í Drangey yfir sumarmánuðina og tekur ferðin þrjá til fjóra klukkutíma. Siglt er frá Reykjum á Reykjaströnd.