Eiðar, fornsögufrægt höfuðból og skólasetur, kirkjustaður og prestssetur, barnaskóli, íþróttavöllur og samkomustaður fyrir héraðsmót. Bændaskóli var stofnaður 1883 og breytt í Alþýðuskóla 1918 en hann var lagður af 1995 og sameinaður Menntaskólanum á Egilsstöðum. Kennslu var hætt þar 1998. Allt Eiðaland milli þjóðvegar og Lagarfljóts var friðað fyrir beit árið 1980. Birkiskógur hefur vaxið upp eftir friðun sem hófst við Húsatjörn 1928. Skógrækt Ríkisins hefur umsjón með skóglendinu. Göngustígar eru umhverfis Húsatjörnina. Eiðavatn, allstórt veiðivatn, í því skógarhólmi, Eiðahólmi, með fjölbreytilegum gróðri. Þar varðveittist birkiskógur, leifarnar af hinum mikla Eiðaskógi til forna. Í fornöld bjó þar Helgi Ásbjarnarson (sbr. Fljótsdæla sögu). Á Eiðum eru brjóstmyndir af skólamönnunum Þórarni Þórarinssyni og Þórarni Sveinssyni. Í landi Eiða eru sumarbústaðir BSRB og Kirkjumiðstöð Austurlands. Sumarhótel er á Eiðum.