Elliðavatn, stærsta stöðuvatn í nágrenni Reykjavíkur og samnefndur bær. Á 18. öld var stofnað þar sauðfjárkynbótabú af sænsk–þýskum barón, Hastfer að nafni. Búið fór út um þúfur en með kynbótafénu barst fjárkláðinn til landsins. Benedikt Sveinsson sýslumaður bjó um skeið á Elliðavatni. Þinganes eða Krossnes heitir tangi í vatninu en árin 1981–85 fóru þar fram fornleifarannsóknir á vegum Þjóðminjasafnsins. Í ljós komu merkar minjar allt frá landnámsöld en rannsókn er þó ekki að fullu lokið.