Fagraskógarfjall, 644 m, svipmikið fjall vestan við Hítardal.
Suður úr austurenda þess gengur móbergsrani, Grettisbæli. Efst í Grettisbæli eru skörðóttir móbergstindar en neðar snarbrattar, gróðurlausar skriður.
Í Grettissögu og Bjarnar sögu Hítdælakappa segir að Grettir Ásmundarson hefði þar aðsetur í helli eða boru í fjallinu því þar væri hið ákjósanlegasta vígi og sæist þaðan vel til mannaferða. Tjaldaði Grettir fyrir boruna með gráu vaðmáli svo að minna bæri á vist hans. Herjaði hann síðan á byggðina í kring.