Flateyjardalsheiði og Flateyjardalur er raunverulega sami dalurinn, framhald Fnjóskadals til sjávar. Flateyjardalur og Flateyjardalsheiði liggja í norður frá Fnjóskadal og eru samtals um 30 km að lengd. Liggur heiðin allmiklu hærra en dalurinn en nyrst í honum við sjóinn er allbreitt undirlendi. Þarna er víðast grösugt og veiði í ám. Víða fagurt landslag en allhrikalegt. Á Flateyjardal voru 5 jarðir sem allar fóru í eyði á árunum 1935–1953, síðast Brettingsstaðir, fyrrum kirkjustaður. Heiðarjarðirnar voru farnar í eyði töluvert fyrr, síðast Kambsmýrar 1929. Á Brettingsstöðum og Jökulsá eru sumarbústaðir. Þokkalegur jeppavegur liggur út í Flateyjardal. Á Flateyjardal gerist fyrri hluti sögu Finnboga ramma.