Flateyri

Flateyri, kauptún, nú hluti Ísafjarðarbæjar. Löggiltur verslunarstaður 1823 en verslun hófst eftir 1790. Aðalatvinnuvegir; sjósókn og fiskiðnaður auk lítils háttar verslunar. 1889 reisti Norðmaðurinn Hans Ellefsen hvalveiðistöð hjá Flateyri og kallaði Sólbakka. Hún brann 1901 og lagðist síðan niður þar. Ráðherrabústaðurinn í Reykjavík er íbúðarhús Ellefsens en hann gaf Hannesi Hafstein það 1904 og var það þá flutt.

Á Goðhóli ofan við þorpið er sagt að hafi staðið hof í heiðni.

Að morgni 26. október 1995 féll snjóflóð á Flateyri og fórust þar 20 manns en 25 björguðust eftir miklar hörmungar. Fjöldi húsa gjöreyðilagðist. Nú hefur verið reistur snjóflóðavarnargarður ofan kauptúnsins. Á garðinum er útsýnispallur.