Fljótsheiði

Fljótsheiði, heiðaflæmi milli Bárðardals og Reykjadals. Um sunnan­verða heiðina skiptast á melásar og mýrasund en norðar er hún algróin og víða mýrlend. Þar eru mörg vötn og tjarnir. Þjóðvegurinn yfir heiðina er í 247 m hæð. Eyðibýlin í Fljótsheiði og nágrenni eiga sér um margt merka sögu en þau eru um 20 talsins. Staðsetning flestra þeirra er þekkt og ábúð á mörgum, en búseta var á nokkrum langt fram á 20. öldina. Oft voru þetta gömul sel, frá bæjum í Bárðardal eða Reykjadal, sem tekin voru til heilsárs búsetu þegar þrengdist um jarðnæði í dölunum, í fyrstu sem hjáleigur, en komust gjarnan í sjálfseignarábúð síðar. Með breyttum þjóðfélagsháttum og þéttbýlismyndun við sjávar­síðuna leið svo heiðabyggðin að mestu undir lok.