Brjánslækur, fornt höfuðból, kirkjustaður, áður prestssetur. Skammt innan við Flókatóttir sem arfsögnin telur rústir af skála Hrafna–Flóka sem þar hafði fyrstu vetursetu sína á Íslandi. Ef rétt er eru þær elsta mannvirki norrænna manna á Íslandi. Ofan við bæinn Surtarbrandsgil, þar er surtarbrandur og einn auðugastur fundarstaður steingervinga hér á landi frá tertíertíma. Veittu þeir Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson þeim fyrstir athygli. Friðlýst náttúruvætti. Við Brjánslæk er Briemsættin kennd en þar bjó ættfaðir þeirra, síra Guðbrandur Sigurðsson (1735–79). Þaðan fer bílaferja til Stykkishólms með viðkomu í Flatey.