Flugumýri, kirkjustaður og höfuðból að fornu og nýju, nefndur eftir meri Þóris dúfunefs, á landnámstíma. Þar bjó Gissur jarl Þorvaldsson um skeið og varð þá Flugumýrarbrenna 1253 er fjendur hans hugðust ná lífi hans. Hann komst undan með því að fela sig í sýrukeri, en hálfur þriðji tugur manna fórst í brennunni. Á Flugumýri voru haldnar prestastefnur Hólabiskupsdæmis. Kvennaskóli var á Flugumýri 1880–82. Í kirkjugarðinum er legsteinn yfir Jóni Espólín sýslumanni og sagnaritara. Virkishóll heitir þar, er að líkindum frá Sturlungaöld. Á Flugumýri hefur um langt árabil verið rekið hrossaræktarbú en þaðan er hinn landsþekkti gæðingur Ófeigur 882.