Fnjóskadalur

Fnjóskadalur, um 40 km langur en fremur þröngur, austurhlíðar brattar og víða skriðurunnar en vesturhlíðar aflíðandi. Langir mel­hjallar með hlíð­um, gamlar strandlínur frá ísöld þegar stöðuvatn var í endi­löngum dalnum. Skógur víða. Fremur strjálbýlt en mikil upp­bygg­­ing sumarhúsa á síðari árum. Fnjóskadalur klofnar fremst í þrjá dali: Bleiksmýrardal, Hjaltadal og Timburvalladal. Voru þeir áður byggðir en eru nú í eyði. Fnjóská all­vatns­mikil, 117 km löng, fellur um dalinn sunnan af öræfum. Hún er lengsta bergvatnsá landsins og góð veiðiá.