Gaddstaðaflatir

Hella, kauptún á eystri bakka Ytri–Rangár við Rangárbrú. Þar var áður bærinn Gaddstaðir. Hella er höfuðstaður og þjónustukjarni Rangárþings ytra sem varð til árið 2002 við sameiningu Rangárvallahrepps, Djúp­ár­hrepps og Holta– og Landsveitar. Íbúar í sveitarfélaginu voru 1.504 1. jan. 2012, þar af 775 á Hellu. Verslun hófst á Hellu 1927 en 1935 var Kaupfélagið Þór stofnað og rak verslun þar til 1988. Þar er m.a. læknis– og dýralæknissetur, íþróttahús, sundlaug, verslanir og margvísleg önnur þjónusta. Á Hellu og víðar um Rangárþing eru árlega haldin Töðugjöld þriðju helgi í ágúst; fjölskylduhátíð fyrir ferðamenn og heimamenn. Á Gaddstaðaflötum suður af þorpinu er kappreiðavöllur, vettvangur stór­móta hestamanna.