Garðabær

Garða­bær, kaupstaður á miðju höfuðborgarsvæðinu með ríflega 11 þúsund íbúa. Góð þjónusta, fagurt útsýni og nálægð við náttúruna er meðal þess sem gerir Garðabæ að eftirsóknarverðum stað til að búa á. Í Garðabæ eru jafnframt margir staðir sem vert er að heimsækja. Minjagarðurinn að Hofsstöðum í miðbæ Garðabæjar er einstæður í sinni röð. Þar eru varðveittar fornminjar frá því snemma á 10. öld, m.a. af næst stærsta skála sem fundist hefur hér á landi frá þeim tíma. Við minjarnar eru snertiskjár þar sem gestir garðsins geta skoðað margmiðlunarefni um líf og starf fólksins sem bjó í landi Garðabæjar fyrir meira en þúsund árum. Býlið Krókur á Garðaholti hefur verið endurgert og er opið almenningi á sunnudögum yfir sumartímann. Krókur er gott dæmi um heimili íslensks alþýðufólks frá því snemma á síðustu öld. Hönnunarsafn Íslands er við Garðatorg. Þar eru reglulega sýningar á íslenskri og erlendri hönnun. Við Garðatorg er líka bókasafn, verslanir og önnur þjónusta. Mörg falleg útivistarsvæði eru í landi Garðabæjar. Afar vinsælt er að ganga hringinn í kringum Vífilsstaðavatn, jafnt sumar sem vetur. Sú ganga tekur um 45 mínútur. Umhverfi Vífilsstaðavatns er friðland og það á einnig við um Gálgahraun og þann hluta Skerjafjarðar sem er innan Garðabæjar. Á vef Garðabæjar ww.gardabaer.is er hægt að skoða gagnvirk kort af bænum þar sem nokkrar gönguleiðir hafa verið merktar inn.