Geithellnadalur, langur dalur og þröngur milli hárra fjalla. Um hann fellur Geithellnaá úr Þrándarjökli. Áður voru þar allmargir bæir, nú flestir í eyði. Úr Múladal, sunnan Geithellnaár, var einna styst leið yfir í Víðidal og löngum farin meðan þar var byggð. Þar er nú merkt gönguleið. Þar og í öðrum dölum á þessum slóðum, eru suðurhlíðar dala gróðurlitlar með mosaþembum en austurhlíðar vel grónar, víða með skógarkjarri. Þykir mjög fagurt í dalnum og í Geithellnaá eru víða fossar og gljúfur gegnum berghöft og klettabríkur.