Glaumbær

Glaumbær, kirkjustaður, prestssetur og fornt höfuðból. Þar er minnisvarði eftir Ásmund Sveinsson til minningar um Guðríði Þorbjarnardóttur og son hennar, Snorra Þorfinnsson, fyrsta Evrópumanninn sem fæddist í Vesturheimi. Prestar hafa setið í Glaumbæ frá árinu 1550.

Í Glaumbæ er stór torfbær af norðlenskri gerð. Sr. Jón Hallsson (1809-94) prófastur lét reisa framhúsin og baðstofuna, sem er öftust bæjarhúsa, á árunum 1876-79. Alls eru húsin 14 að tölu og þar af 6 í framhúsaröð. Engin útihús hafa varðveist. Búið var í bænum til ársins 1947 og hefur hann verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands síðan. Byggðasafn Skagfirðinga var formlega stofnað árið 1948 og hefur haft afnot af Glaumbæ síðan þá.

Tvö 19. aldar timburhús, svokallað Áshús og Gilsstofa, hafa verið flutt að Glaumbæ og eru notuð í þágu Byggðasafnsins.