Svarfaðardalur, breiður, grösugur, þéttbýll, kringdur háum, fagursköpuðum fjöllum. Í botni Skíðadals er Gljúfurárjökull, sést víða að. Svarfaðardalsá allvatnsmikil og lygn neðan til. Kirkjurnar í Svarfaðardal þykja um margt merkilegar. Fyrir það fyrsta voru þær fjórar talsins sem þykir mikið í ekki stærri byggð. Friðuðu kirkjurnar þrjár í Svarfaðardal, á Völlum, á Urðum og á Tjörn eru allar með hinu sama „svarfdælsku“ lagi þar sem forkirkjan er lægri en sjálf aðalkirkjan og gefur það þeim allsérstætt svipmót. Margir merkir munir úr kirkjunum eru í vörslu þjóðminjasafns Íslands. Ber þar helst að nefna Upsakrist sem er róðukross, talinn frá 12. öld, nú hangir eftirmynd hans á Byggðasafninu Hvoli. Þá má nefna tvær altaristöflur. Önnur er úr Urðakirkju en Jón Hallgrímsson málaði hana 1791 hin er úr Upsakirkju en hana málaði Hallgrímur faðir Jóns 1771. Þessar tvær töflur eru þjóðardýrgripir.