Hrafnseyri, kirkjustaður með mikilli sögu. Kennd við Hrafn Sveinbjarnarson höfðingja á 12.–13. öld, sem talinn er fyrsti menntaði læknir á Íslandi. Á Hrafnseyri fæddist Jón Sigurðsson forseti 17. júní 1811. Minnismerki um hann reist þar. Kapella og minjasafn um Jón var vígt 2. ágúst 1981. Árin 1977–78 voru grafnar upp fornminjar, bæjarstæði fyrsta landnámsmannsins þar sem var Án rauðfeldur. Kona hans hét Grelöð Bjartmarsdóttir og voru tóttirnar sem grafnar voru upp við hana kenndar, Grélutóttir. Afi og alnafni Jóns Sigurðssonar reisti nýjan bæ á Hrafnseyri skömmu fyrir aldamótin 1800 og var hann með þremur burstum. Þar fæddist Jón Sigurðsson. Telja má nokkuð öruggt að séra Jón hefur byggt bæ sinn eftir teikningum séra Guðlaugs Sveinssonar prófasts í Vatnsfirði við Djúp, en hann átti hugmyndina að byggingu burstabæja á landinu. Um síðustu aldamót voru húsin komin að falli og því rifin, að undanskildum einum vegg sem hefur staðið síðan. Burstabærinn á Hrafnseyri hefur verið endurbyggður samkvæmt úttektargerðum og líkani sem gert var samkvæmt lýsingu samtímamanns. 1997 var verkinu lokið, húsið vígt og opnað vegfarendum til skoðunar.