Grímmannsfell, norðan vegar, 454 m, en sunnan undir því er Seljadalur. Þar lágu gömlu reiðgöturnar til Þingvalla. Akvegur var lagður á suðurbrún dalsins fyrir aldamót og var það aðalvegurinn til Þingvalla, þar til vegur var lagður sem næst á núverandi vegarstæði fyrir Alþingishátíðina 1930. Fyrst var ekið á bíl um gamla Þingvallaveginn 1913. Hæst á heiðinni, upp af dalbotninum, var rekið veitingahúsið „Heiðablómið“ á þriðja áratugnum. Leiðin er um suðurhlíðar Mosfellsheiðar, sem er grágrýtisdyngja, ein eða fleiri, jökulmáð og töluvert gróin. Hæst á dyngjunni eru Borgarhólar, en talið er votta fyrir gíg við Eiturhól, austar á heiðinni.