Gullborgarhraun, í Hnappadal, runnið frá gígnum Gullborg. Í því eru stórir, sérkennilegir hellar, einn þeirra Gullborgarhellir sem ýmsir telja meðal fegurstu hraunhella landsins, einkum sakir dropasteinsmyndana sem eru þar fegurri og meiri en víðast annars staðar. Hellirinn er friðlýstur og óheimilt að fara í hann nema með fylgd sem fæst á bænum Heggstöðum. Einnig eru þar mannvirki forn sem getið hefur verið til að væru frá Sturlungaöld, en þá átti Aron Hjörleifsson fylgsni í hrauninu. Sagnir eru um að þar hafi verið til Aronshellir sem var höfuðfylgsni hans. Hann er nú týndur. Árið 1979 fannst enn einn hellir í hrauninu.