Hafnarfjörður, kaupstaður við samnefndan fjörð 10 km. sunnan við Reykjavík. Íbúar voru 26.477 1. jan. 2012. Hafnarfjörður hefur lengi gengið undir nafninu „Bærinn í hrauninu“. Ástæðan er hið sérkennilega og fallega landslag sem myndar umgjörð bæjarins. Norðurhluti Hafnarfjarðar, er byggður á hrauni og í Hellisgerði, skemmtigarði Hafnarfjarðar, má sjá þverskurð þessa landslags. Þó að hraunið hafi víða orðið undan að láta fyrir hröðum vexti mannlífsins ber bærinn enn sem fyrr sterkt svipmót reginafla náttúrunnar og höfnin setur einnig sterkan svip á bæinn. Möguleikar til göngu og útivistar eru afar fjölbreyttir innan Hafnarfjarðar og á hverju vori er gefinn út skemmtilegur ratleikur fyrir alla fjölskylduna. Staðir sem mæla má með eru t.d.; Hellisgerði þar sem mikil byggð álfa og huldufólks finnst og nyrsti Bonsaigarður í heimi.; Víðistaðatún en þar er alþjóðlegur höggmyndagarður; Hamarinn, útsýnisskífa og bústaður álfa af konungakyni; Lækurinn; Ásfjall og Ástjörn, sem var friðlýst 1978 sökum einstæðs fuglalífs en er nú fólkvangur. Í menningarlífi Hafnarfjarðar kennir margra grasa. Í Hafnarborg, menningar og listastofnun bæjarins, eru myndlistarsýningar allt árið og er aðgangur ókeypis en auk þess eru þar haldnir tónleikar og ýmsir aðrir menningarviðburðir. Kvikmyndasafn Íslands er í Hafnarfirði og í hinu gamla og virta Bæjarbíói eru sýndar sígildar kvikmyndir. Byggðasafn Hafnarfjarðar er með sýningaaðstöðu í sex húsum í bænum og eru að jafnaði níu sýningar í gangi í einu en aðgangur að safninu er ókeypis. Þá er lista og menningarhátíðin Bjartir dagar ár hvert í júnímánuði og einnig Sólstöðuhátíð Fjörukráarinnar og á aðventunni heimsækja allir Jólaþorpið í miðbænum. Fornri menningu landnámsmanna og víkinga má kynnast í víkingaveislum í veitingahúsinu Fjörukránni. Hafnarfjörður er einnig rómaður fyrir fjölbreytt úrval aðlaðandi kaffi– og veitingahúsa.