Hella, kauptún á eystri bakka Ytri–Rangár við Rangárbrú. Þar var áður bærinn Gaddstaðir. Hella er höfuðstaður og þjónustukjarni Rangárþings ytra sem varð til árið 2002 við sameiningu Rangárvallahrepps, Djúpárhrepps og Holta– og Landsveitar. Íbúar í sveitarfélaginu voru 1.504 1. jan. 2012, þar af 775 á Hellu. Verslun hófst á Hellu 1927 en 1935 var Kaupfélagið Þór stofnað og rak verslun þar til 1988. Þar er m.a. læknis– og dýralæknissetur, íþróttahús, sundlaug, verslanir og margvísleg önnur þjónusta. Á Hellu og víðar um Rangárþing eru árlega haldin Töðugjöld þriðju helgi í ágúst; fjölskylduhátíð fyrir ferðamenn og heimamenn. Á Gaddstaðaflötum suður af þorpinu er kappreiðavöllur, vettvangur stórmóta hestamanna.