Hellnar, hétu áður Hellisvellir og skiptast í Balapláss (efri hlutinn) og Hleinapláss (neðri hlutinn), fiskipláss, ströndin sérkennileg, fjölbreytt og fögur vegna furðulegra bergmyndana. Hellirinn Baðstofa með einkennilegri birtu.
Í Hleinavör á Hellnum eru sýnileg kjalför grópuð í hleinarnar.
Þar er kirkja, en var áður á Laugarbrekku, skammt fyrir ofan þorpið. Þar fæddist Guðríður Þorbjarnardóttir, kona Þorfinns karlsefnis og móðir fyrsta hvíta barnsins sem fæddist í Ameríku. Á bæjarstæðinu er afsteypa af styttu Ásmundar Sveinssonar; Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku, til minningar um Guðríði og minningarskilti við þjóðveginn.
Við Gróuhól á Hellnum er lind, svokölluð Lífslind Hellnamanna, en í seinni tíð oft nefnd Maríulind vegna Maríulíkneskis sem sett var upp við lindina. Maríulindina þrýtur aldrei og hún er talin hafa lækningamátt. Samkvæmt helgisögn kom Guðmundur góði að lindinni árið 1230 og þá birtist honum og fylgdarmönnum hans kona í fylgd þriggja engla og bauð hún honum að helga lindina sem hann og gerði.
Gestastofa Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls er á Hellnum.