Hindisvík

Hindisvík, hlunnindajörð við samnefnda vík. Eitt mesta selalátur á Norðurlandi. Sérkennilegt landslag og útsýni mikið til Stranda. Skammt austan við Hindisvík er Strandvík. Þar strandaði briggskipið Valborg í ofsaveðri 12. okt. 1869. Í Hindisvík bjó um langt skeið séra Sigurður Norland (1885–1970), sérstæður gáfumaður og skáld.
Umferð ferðamanna um jörðina er ekki lengur leyfð, þar sem ágangur þeirra hefur valdið verulegri fækkun á sel og æðarfugli sem og öðrum náttúruspjöllum.
Þetta er gert í anda séra Sigurðar, en í hans tíð var allur selur friðaður í Hindisvík.