Hítardalur

Hítar­dalur, fornt höfuðból, prestssetur og kirkjustaður fram til 1895 er prestakallið var lagt niður og sóknin lögð til Staðarhrauns. Í Hítardal varð eitt mesta manntjón í eldsvoða sem um getur hér á landi er Magnús Einarsson (1098–1148), biskup í Skálholti, brann þar inni ásamt 70–80 manns. Ætlunin var að reisa þar klaustur á seinni hluta 12. aldar en engar heimildir eru um að það hafi verið starfrækt. Við túnið í Hítardal er Nafna­klett­ur með elstu nöfnum frá því snemma á 18. öld. Þar er t.d. grafið nafn Ebenezers Hendersons, hins nafnkunna ferðalangs og stofnanda Hins íslenska Biblíufélags. Í Bæjarfellinu eru tveir hellar, Fjárhellir og Sönghellir. Klettar sem Drangar heita eru með greinilegum andlitsdráttum. Sagan segir að þetta séu þau tröllkonan Hít og Bárður Snæfellsás, en í þjóðsögum segir að tröllskessan Hít hafi búið í Hítardal og dragi dalurinn nafn af henni. Gamall hornsteinn úr Hítardalskirkju er með úthöggvinni mynd sem almennt var talið að táknaði Hít tröll­skessu en fræðimenn helgi­mynd. Steinninn er geymdur í Hítardalstúni en afsteypa af myndinni er á Þjóðminjasafni Ís­lands.