Vatnsfjörður, fornt höfuðból og sögustaður við samnefndan smáfjörð, kirkjustaður og prestssetur, þótti fyrrum eitt af bestu brauðum landsins sakir hlunninda og ítaka staðarins vítt um Vestfirði. Urðu staðarhaldarar og prestar þar margir auðmenn. Meðal merkustu ábúenda Vatnsfjarðar er þau feðgin Björn Einarsson Jórsalafari og Vatnsfjarðar–Kristín. Þrír Vatnsfjarðarpresta í röð skrifuðu annála. Þann yngsta skrifaði séra Guðlaugur Sveinsson (1731–1807). Árið 1791 birti séra Guðlaugur ritgerð ásamt útlitsteikningum sem boðaði algjöra umbyltingu á stöðu bæjarhúsa og útliti þeirra. Þetta voru í raun fyrstu hugmyndir um byggingu burstabæja sem vitað er um og má því með réttu kalla séra Guðlaug föður íslenska burstabæjarins. Sjá Hrafnseyri, s. 289. Í Vatnsfirði var Hjalti prestur Þorsteinsson (1665–1754), mestur málari Íslands á sinni tíð. Um Vatnsfjörð voru háð meiri málaferli en nokkurn annan stað á landinu. Ofan við bæinn er Grettisvarða, sennilega varðturn eða nokkurs konar viti. Varðan er 2,6 m há, ummál hennar neðst er 9 m en 5 m efst. Í toppi vörðunnar er 0,9 m djúp hola. Þegar hætta steðjaði að byggðinni var bál líklega kveikt í vörðunni svo að fólk gæti verið á varðbergi. Gæti verið frá Sturlungaöld. Í Vatnsfirði eru gerðir upp fiskhjallar í gömlum stíl. Forn jarðgöng, nýfundin, liggja frá gamla bæjarstæðinu að kirkjunni. Á Vestfjörðum er á stórum svæðum mikið af prýðilegu hleðslugrjóti og var þar víða eingöngu notað grjót í veggi torfhúsa. Hjallurinn er gott dæmi um þetta. Hann er með stærstu og veglegustu húsum sinnar tegundar á landinu en hann er talinn reistur um 1880. Þjóðminjavörður beitti sér fyrir því að hjallurinn yrði tekinn á fornleifaskrá árið 1976. Síðar sama ár var gert rækilega við hann og hefur hann verið hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands síðan.