Hofsós

Hofsós, var mikilvægur verslunarstaður á tímum einokunarverslunarinnar 1602-1787. Pakkhúsið á Hofsósi er með elstu timburhúsum landsins, byggt um 1777. Það var flutt tilsniðið til landsins á vegum dansks verslunarfélags, eitt tólf sambærilegra húsa, sem reist voru á athafnasvæði þess. Aðeins eitt annað þessara húsa stendur enn og er það í Jakobshavn á Grænlandi.

Til stóð að rífa húsið árið 1915 en þjóðminjavörður fékk því afstýrt. Hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá 1954. Viðgerðir hófust þó ekki fyrr en árið 1986 og var húsið tekið í notkun fyrri hluta ársins 1992. Ýmsar sýningar hafa verið settar upp í húsinu í seinni tíð.

Í þremur húsum við höfnina, sem ýmist voru byggð snemma á 20. öld eða í enn eldri stíl er Vesturfarasetrið. Þar eru sýningar sem tengjast ferðum Íslendinga til Vesturheims, auk bókasafns og upplýsinga- og ættfræðþjónustu fyrir fólk af íslenskum ættum búsett bæði í Vesturheimi og á Íslandi.

Lilja Pálmadóttir og Steinunn Jónsdóttir athafnakonur gáfu íbúum á Hofsósi sundlaug á kvenréttindadaginn 19. júní árið 2007. Hún var formlega tekin í notkun 27. mars 2010.