Húsafell

Húsafell, efsti bær í Borgarfirði, sunnan Hvítár. Prestssetur fyrrum og kirkjustaður. Nú er þar kapella. Snorri Björnsson (1710 –1803) gerði garðinn frægan, rímnaskáld, þótti fjölkunnugur sem þjóðsögur herma, kraftamaður, reyndi afl sitt og annarra á Kvíahellu sem enn er þar við tún, vegur 180 kg. Snorri er grafinn að Húsafelli og er legsteinn hans þar. Jarðhiti, mikill skógur, fjölbreytt ferðaþjónusta, golfvöllur og sundlaug.

Páll Guðmundsson listamaður er fæddur og uppalinn á Húsafelli og þar er vinnustofa hans. Páll er landskunnur af list sinni og þekktur langt út fyrir landsteinana fyrir málverk sín og höggmyndir. Umhverfis vinnustofuna og víða um Húsafellsland má sjá verk Páls en nær allt grjót sem hann notar í höggmyndir sínar finnur hann á Húsafelli. Frá Húsafelli liggur vegur upp á Kaldadal.