Húsavík

Húsavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1950 .Nafn kaupstaðarins er tilkomið vegna þess að sögur herma að landnámsmaðurinn Garðar Svavarsson hafi haft hér vetursetu og fyrstur norrænna manna reist sér hús hér á landi. Hitaveita hefur verið starfrækt á Húsavík síðan 1973, en hún nýtir hveravatn frá Hveravöllum í Reykjahverfi.

Mikil og ört vaxandi þjónusta er við ferðamenn sem koma aðallega í tengslum við hvalaskoðunarferðir á Skjálfandaflóa en Húsavík er þekkt sem miðstöð hvalaskoðunarferða bæði hérlendis og erlendis. Mjög athyglisvert hvalasafn er á hafnarsvæðinu sem fært hefur fjölda ferðamanna til staðarins.

Í Safnahúsinu sem er staðsett um 300 m frá höfninni er sýning um sambúð manns og náttúru, sjóminjasýning, listsýningar, ljósmyndasýningar, skjalasafn og bókasafn.