Hvallátur, vestasta byggð á Íslandi og Evrópu, rétt norðan við Bjargtanga. Mikil verstöð fyrrum, margar minjar fornra atvinnuhátta. Þaðan var stjórnað björgun breska togarans Dhoon undir Látrabjargi í desember 1947, einu fræknasta björgunarafreki við Ísland. Á Brunnum hjá Hvallátrum er gömul verstöð, mikið skoðuð af ferðafólki. Þar er m.a. svonefndur Kúlureitur, veglegasta dys á Íslandi, talin Tyrkjadys. Af Látrahálsi liggur vegur á Keflavíkurbjarg en torleiði þaðan niður í Keflavík. Á Brunnahæðum er Gvendarbrunnur, vígður af Guðmundi biskupi hinum góða. Við brunninn eru smávörður sem menn hlóðu sér til fararheilla.