Hveragerði

Hveragerði, byggð hófst þar laust fyrir 1930. Aðalatvinnuvegir eru ylrækt, verslun og þjónusta. Þar er Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands, Listasafn Árnesinga og Upplýsingamiðstöð Suðurlands.

Mikið jarðhitasvæði er í og við bæinn. Gróðurhús eru mörg og eru þar framleidd bæði blóm og grænmeti ýmis konar. Árið 2011 brann Eden til kaldra kola sem var ein fjölsóttasta ferðamannaverslun landsins.

Hverasvæði er staðsett í miðjum bænum og er það ein merkasta náttúruperla Suðurlands. Á svæðinu eru mjög áhugaverðir hverir sem vert er að skoða auk framandi plantna í gróðurhúsi.

Ofan bæjarins er nýtt hverasvæði sem opnaðist í jarðskjálftanum 2008. Fjölmargar merktar gönguleiðir eru í og við Hveragerði sem gerir bæjarfélagið að ákjósanlegum áningarstað göngufólks. Goshverinn Grýla er inn af þorpinu.