Ísafjörður

Ísafjörður, höfuðstaður Vestfjarða. Fjörðurinn er umkringdur háum og bröttum fjöllum og fjórir dalir, Engidalur, Dagverðardalur, Tungudalur og Seljalandsdalur ganga inn úr firðinum. Þar er og verður framtíðar útivistarsvæði Ísfirðinga. Í Tungudal er stór golfvöllur, skíðasvæði, tjaldsvæði og gönguleiðir um skógræktarlandið. Í Engidal er fyrirhuguð hesthúsabyggð og reiðvellir. Á Seljalandsdal er skíðagöngusvæði með upplýstum brautum og skíðaskála. Innan við eyrina er Pollurinn, ein besta höfn landsins frá náttúrunnar hendi.

Bærinn á sér langa sögu og settust kaupmenn að á eyrinni um miðja 16. öld. Í Neðstakaupstað eru fjögur friðlýst hús frá tímum danskra verslunarfélaga, það elsta frá 1757. Hvergi á Íslandi eru eins heillegar og vel varðveittar minjar um verslunarstað frá fyrri öldum. Byggðin á eyrinni tók ekki að vaxa fyrr en með afnámi einokunar og stofnun kaupstaðar árið 1787.

Ísafjörður hefur skapað sér orðspor sem miðstöð sjókajakferða á Íslandi. Ástæða þess eru endalausir möguleikar á kajakferðum um firði og víkur Ísafjarðardjúps, Jökulfjarða og Hornstranda.