Jökuldalsheiði

Jökuldalsheiði, heiðarflæmi víðast um og yfir 500 m y.s., suðvestur af byggðum Vopnafjarðar, vestan Jökul­­­dals, alls um 60 km löng. Liggur á milli Möðru­dals­fjall­garða og Jökuldals. Víðast vel gróin og mýrlend með mörg­um stöðu­vötnum, flestum með veiði. Sagnir eru um nokkur fornbýli í Heiðinni en á árunum 1841–1860 risu þar 16 býli, mörg á gömlum seljum. Flest munu hafa verið um 120 manns í Heiðinni. Byggðin skiptist til margra kirkju­sókna. Í Öskjugosinu 1875 varð hún fyrir miklu áfalli og lagðist af á öllum bæjum nema 5 þeim nyrstu. Margir sem fluttust burt fóru síðar til Ameríku. Nokkrum árum síðar byggðust nokkur býlanna að nýju og hélst byggð á flestum fram á fyrstu tugi 20. aldar. Síðasta býlið, Heiðar­sel, fór í eyði 1946. Lauk þar með rúmlega 100 ára sögu „heiðarbýlanna“.