Jökulsá á Brú

Jökulsá á Brú eða Dal, einnig nefnd Jökla. Lengsta vatnsfall á Austur­landi og eitt hið mesta um 150 km löng. Talin gruggugust íslenskra vatnsfalla og getur flutt fram 112 þúsund tonn af aur á sólarhring. Í hana falla margar smærri og stærri ár og eru Sauðá og Kringilsá þeirra mestar. Kringilsárrani, tungan milli Jökulsár og Kringilsár er mikilvægt svæði fyrir hreindýrin. Skömmu eftir að Sauðá fellur í Jökulsá eru að henni ein hrika­legustu árgljúfur á Íslandi, undir Kárahnúkum. Þau nefnast Dimmugljúfur, ofurþröng og 160 m djúp. Syðst í þeim er Kárahnjúkastífla sem myndar svo Hálslón. Góð jeppaslóð liggur þangað frá bænum Brú um Fiskidalsháls og Laugavalladal. Aka má áfram suður fyrir stíflu­mann­virki og austur á Fljótsdalsheið. Norðan Dimmugjúfra taka við Hafra­­hvamm­ar, grasi grónar brekkur niður að Jökulsá að vestan en á móti þeim, austan ár, rís um 200 m hár og þverhníptur hrikalegur hamra­veggur. Syðst í Hvömmun­um, ofan til í brekkunni, er Magnahellir þar sem talið er að sauðamenn frá Brú hafi hafst við. Sex brýr eru á Jökulsá og ellefu kláf­ferjur voru á henni. Munnmæli eru um tvo steinboga í ánni, annan hjá Brú en hinn 1–2 km ofan við nýju brúna við Brúarás. Þegar lítið er í ánni sést steinbogi ofan við Gil.