Jökulþúfur

Snæfellsjökull, megineldstöð (eldkeila) og eitthvert frægasta fjall á Íslandi. Hann var lengi haldinn vera hæsta fjall landsins, þótt hann sé aðeins 1446 m á hæð. Ekkert fjall rís þó hærra frá sjó, auk þess sem hann stendur stakur, og mun það hafa valdið. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson gengu fyrstir nafnkenndra manna á jökulinn, 1. júlí 1753. Þótti það þá hin mesta háskaför en nú er mjög fjölfarið á jökulinn. Jökulþúfur heita bergstandar þrír sem hæst ber á jöklinum (Norður–, Mið– og Vesturþúfa). Norðvestan þeirra er stór gígskál í jöklinum, um 1 km í þvermál og með allt að 200 m háum hömrum við þúfurnar, en opin til vesturs. Gosið hefur oft í jöklinum og við hann, þó ekki á sögulegum tíma svo vitað sé. Uppi undir jökuljaðrinum eru nokkrar eldstöðvar sem einkum hafa gosið súrum (ljósum) vikri og ísúrum hraunum, en niðri á láglendinu, vestan og suðvestan jökuls, hefur einkum gosið basalthraunum. Síðasta stóra vikurgosið er talið að hafi orðið fyrir um 1750 árum, norðvestan við jökulinn. Mikil flóð hafa fylgt gosi í jöklinum. Jökullinn var um tvöfalt stærri upp úr aldamótum 1900 en hann er nú. Minnkaði hann síðan ört fram til 1960, en eftir það hefur hann lítið rýrnað og jafnvel gengið fram sums staðar. Jökulgarðar eru enn víða utan við jökulinn, sem sýna fyrri útbreiðslu hans. Austan– og suðaustan við jökulinn eru þykkar vikurbreiður og var þar vikur numinn á vegum Jóns Loftssonar hf. um langt árabil upp úr 1935. Honum var fleytt með leysingavatni frá jöklinum um trérennur niður Kýrskarð og niður í Klifhraun, þar sem honum var safnað saman. Vikrinum var dælt með vatni um borð í flutningaskip á Stapa. Vatni var einnig sprautað á vikurstálið til þess að ná vikrinum niður. Um tugur manns vann við vikurnámið í upphafi. Vikurnám hófst aftur fyrir fáum árum, en að þessu sinni er vikurinn fluttur til Ólafsvíkur. Snæfellsjökull er nú frægur vegna alþjóðlegrar dulmagnatrúar á honum, en heimsfrægð hans er þó eldri, frá því að skáldsaga Jules Verne, Leyndardómar Snæfellsjökuls (Ferðin að miðju jarðar), kom út 1864. Jökullinn og umhverfi hans varð þjóðgarður árið 2001. Mörk þjóðgarðsins eru í suðri við Háahraun í landi Dagverðarár og í norðri við Gufuskála.