Keldur

Keldur, höf­uð­ból fornt, kem­ur við Njáls sögu, var síð­ar eitt af höf­uð­ból­um Odda­­verja. Kirkju­­stað­ur. Þar er torfbær af fornri gerð, eini stóri torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Á Keldum er varðveitt einstök heild bæjarhúsa og útihúsa en það eru samtals yfir 20 mannvirki. Timburgrind margra húsanna er með stafverki, prýdd strikum af rómanskri gerð, sér­stak­lega í skálanum. Á stoðum hans eru m.a. ummerki eftir rúmstæði og á syllu eina er rist ártalið 1641. Skál­inn er að öllum líkindum nokkru eldri en hann hefur oft verið endur­byggð­ur í gegnum aldirnar. Úr skálanum liggja jarðgöng, sem talin eru frá 11. – 13. öld og eru líklega undan­komu­leið á ófriðartímum. Vestan við trað­irnar að bænum er myllukofi. Búið var í gamla bænum til ársins 1946. Hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá 1947. Upp­blást­ur hef­ur herj­að mjög á Keldna­land og þekkjast mörg eyði­­býli þar í kring. Skúli Guð­munds­­son (1862–1946) bóndi á Keld­um vann stór­virki í heft­ingu sand­foks og eru sand­varn­ar­garð­ar hans merki­leg mann­­virki.