Keldur, höfuðból fornt, kemur við Njáls sögu, var síðar eitt af höfuðbólum Oddaverja. Kirkjustaður. Þar er torfbær af fornri gerð, eini stóri torfbærinn sem varðveist hefur á Suðurlandi. Á Keldum er varðveitt einstök heild bæjarhúsa og útihúsa en það eru samtals yfir 20 mannvirki. Timburgrind margra húsanna er með stafverki, prýdd strikum af rómanskri gerð, sérstaklega í skálanum. Á stoðum hans eru m.a. ummerki eftir rúmstæði og á syllu eina er rist ártalið 1641. Skálinn er að öllum líkindum nokkru eldri en hann hefur oft verið endurbyggður í gegnum aldirnar. Úr skálanum liggja jarðgöng, sem talin eru frá 11. – 13. öld og eru líklega undankomuleið á ófriðartímum. Vestan við traðirnar að bænum er myllukofi. Búið var í gamla bænum til ársins 1946. Hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands frá 1947. Uppblástur hefur herjað mjög á Keldnaland og þekkjast mörg eyðibýli þar í kring. Skúli Guðmundsson (1862–1946) bóndi á Keldum vann stórvirki í heftingu sandfoks og eru sandvarnargarðar hans merkileg mannvirki.