Kistualda

Sprengisandsleið (Ölduleið) 107,9 km. Leiðin liggur frá Hálendismiðstöðinni að Hrauneyjum í Nýjadal. Forn og nýr fjallvegur milli Norður– og Suðurlands. Leiðin var allfjölfarin fyrrum, t.d fóru Skálholtsbiskupar norður Sprengisand á vísitasíuferðum sínum til Austurlands eins og gömul örnefni benda til, Sveinar, Sprengir og Beinakerling (sjá F752). Beinakerling var löngu týnd en fannst aftur 1977, sjá Sprengisandur, vegur F921. Síðan lögðust ferðir að mestu niður yfir sandinn svo nærri lá að leiðin glataðist. Seinni hluta 18. aldar tókust nokkrar ferðir þessa leið og hélst svo alla 19. öld en þó ætíð fremur fáfarið þar til bílaöld hófst, en fyrsta bílferðin yfir Sprengisand var farinn 1933. Elsta leiðin lá upp úr Þjórsárdal vestan Þjórsár og yfir hana á Sóleyjarhöfðavaði og síðan norður sandinn að Mýri í Bárðardal. Um 240 km eru frá Skriðufelli í Þjórsárdal að Mýri. Einnig, en sjaldnar þó, var farið frá Galtarlæk og austan Þjórsár og komu leiðir saman við Sóleyjarhöfða. Loks er Sigölduvirkjun var gerð og Tungnaá brúuð færðist leiðin enn austar og er það sú leið sem nú er farin en bílslóðar tengja hana við gömlu leiðina. Þegar kvíslar í Þjórsárverum voru stíflaðar á níunda áratugnum og vatni veitt um Stóraversskurð um Illugaver til Köldukvíslar og Þórisvatns var byggður upp vegurinn sem liggur um stíflurnar inn í Þjórsárver. Við brú á Stóraversskurði var byggður fjallaskáli, þar sem rekið hefur verið sumarhótel (sjá Versali). Vötn mynduðust ofan við stíflurnar sem nú hafa verið gerð að fiskivötnum. 425 vörður (frá 1906) standa á Sprengisandsleið hinni fornu á Gnúpverjaafrétti. Tugir dugmikilla manna og kvenna vinna að endurreisn varðanna frá Skriðufelli inn á Sóleyjarhöfða í Þjórsárverum en þær nýtast göngufólki og hestamönnum. F26 er malbikaður og uppbyggður vegur inn að Vatnsfellsvirkjun. Við Vatnsfellsvirkjun byrjar uppbyggður malavegur sem er fær öllum farartækjum inn að Stóraveri. Þar eru skálar sem kallast Versalir, þar hefur verið gisti– og veitingahús frá árinu 1987. Skömmu áður en komið er að Versölum eru gatnamót. Þar greinist Sprengisandsvegur í Kvíslaveituveg og Ölduleið. Þegar haldið er beint áfram við gatnamótin er ekinn Kvíslaveituvegur og er hann fær öllum farartækjum inn að Þjórsárstíflu, en þaðan er vegurinn einungis jeppavegur. Þúfuver, er vestan vegarins, það er mýrarfláki undir Biskupsþúfu, áningastaður Skálholtsbiskupa. Af Kvíslaveituvegi er hægt að aka norður fyrir Kvíslavatn og inn á Ölduleið. Einnig er hægt að halda áfram til norðurs að vaði Fjórðungakvíslar. Skammt sunnan vaðsins er þverleið sem liggur yfir sandinn á Ölduleið rétt sunnan við Nýjadal. Einnig er hægt að aka áfram norður yfir vaðið á Fjórðungakvísl, áin er þó orðin allnokkurt vatnsfall þarna og getur verið varhugaverð óbreyttum jeppum. Rétt norðvestan við vaðið eru vörðurnar Sjö sveinar. Fjórðungakvísl, mynduð af Hagakvíslum og Nýjadalsá sem koma undan Tungnafellsjökli, fellur í Bergvatnskvísl og verður þannig ein af upptakakvíslum Þjórsár. Við hana eru fjórðungamörk Norðlendinga og Sunnlendingafjórðunga. Handan vaðsins er komið á svonefndan Biskupaveg sem sameinast Sprengisandsleið við Fjórðungsvatn. Við Kvíslaveituveg eru tvö af bólum Fjalla–Eyvindar og Höllu. Rétt norðvestan við veginn er Eyvindarver, mýrarfláki við Þjórsá. Mjög mikið fuglalíf, einkum gæsir og álftir. Á Lindarbakka norðarlega í verinu eru rústir kofa Fjalla–Eyvindar. Norðaustan við vegin er svo Innrahreysi, ógreinilegar rústir af öðrum kofa Fjalla–Eyvindar. Þar voru hann og Halla kona hans handtekin 1772. Frá fyrrnefndum gatnamótum sunnan Versala, er haldið inn á Ölduleið og ekið norður að Svartá norðan Þveröldu. Þar er fyrsta vað á leiðinni og þangað er hægt að aka öllum farartækjum ef varlega er farið. Vegurinn liggur um Þveröldu í 728 m hæð og er þaðan mikið útsýni, norðaustan í öldunni er Þverölduvatn. Næsta alda norðan Þveröldu er Hnöttóttaalda, 785 m. Frá Svartá og norður eru mörg smá vöð á smáám. Ekið er um Hnausaver, með sérstæðum freðmýrarpollum, síðan kemur Skrokkalda, 922m. Nyrsta aldan er Kistualda, 786 m, með klettaborg á kolli. Norðan við öldurnar er komið í Nýjadal og eru vöð á jökulám norðan við Nýjadal (sjá Bárðardalsleið). Því er óvarlegt að aka lengra norður en að Svartá á eindrifsbílum. Þó fara oft háir eindrifsbílar Sprengisandsleið í fylgd með jeppum.