Kollafjörður

Kollafjörður, 16 km langur fjörður í Gufudalssveit, alldjúpur og miklir vaðlar í fjarðarbotni. Upp frá Kollafirði liggur Kollafjarðarheiði sem var ein af alfaraleiðum milli Breiðafjarðar og Djúps en aðrar þær helstu voru Skálmardalsheiði og Þorskafjarðarheiði. Þær ná allar upp í 400–500 m y.s. en um Skálmardalsheiði er styst milli byggða. Hún liggur upp úr Skálmardal í botni Skálmarfjarðar og kemur niður hjá Gjörvidal við botn Ísafjarðar. Þorskafjarðarheiði er þeirra lengst. Hún lá upp úr Kollabúðardal í Þorskafirði en kom niður í Langadal í Ísafjarðardjúpi. Breiðfirðingar fóru heiðar þessar til útróðra í Bolungarvík á vetrarvertíð. Einnig fóru þeir um heiðarnar í kaupstaðaferðum til Ísafjarðar á síðustu öld og fram eftir þessari. Um aldamótin síðustu var farið þessar leiðir til fjárrekstra til Ísafjarðar og var þá, til að stytta sér leið, einnig farin Hest­fjarða­heiði ofan í Álfta­fjörð.