Kópasker

Kópasker, vinalegt þorp. Kaupfélag Norður Þingeyinga hóf þar starfsemi 1894 og var burðarás kauptúnsins lengi vel. Flugvöllur er við Kópasker.

Hinn 13. janúar 1976 reið mjög harður jarðskjálfti yfir Kópasker og nágrenni. Átti hann upptök úti í firðinum um 12 km suðvestur af Kópaskeri. Skemmdir urðu víða miklar, hús sprungu og urðu sum óíbúðarhæf, vatnsleiðslan til þorpsins kubbaðist sundur, hafnargarðurinn slitnaði sundur og misgekk. Brýr í Núpasveit skemmdust, hraunhólar við Presthóla röskuðust líkt og af sprengingu og björg hrundu úr Öxarnúpi. Skjálftasetrið í skólahúsinu er opið frá júníbyrjun til ágústloka.